Search for European Projects

Intercultural Education and Training in pre-schools
Start date: Oct 15, 2015, End date: Oct 14, 2017 PROJECT  FINISHED 

Verkefnið "Fjölmenningarleg menntun og þjálfun í leikskólum" fólst í því að leikskólakennarar og stjórnendur, ásamt verkefnastjóra fjölmennningar á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar kynntu sér áherslur og aðferðir leikskóla, fjölskyldumiðstöðva og yfirvalda varðandi vinnu með börn innflytjenda í Dortmund, Þýskalandi. Þá gafst þátttakendum einnig tækifæri til að sitja námskeið í menningarnæmi (e. intercultural competence) en aukið menningarnæmi í starfi með ungum börnum felur bæði í sér skilning og færni til að takast á við þarfir fjölbreyttra barnahópa og fjölskyldna þeirra. Leikskólabörnum af erlendum uppruna hefur fjölgað jafnt og þétt á undanförnum árum, ekki síst í Reykjavíkurborg þar sem börn af erlendum uppruna eru í kringum 18%. Liður í því að þróa leikskólastarf sem kemur til móts við þarfir barna af erlendum uppruna er að skoða reynslu annarra landa sem hafa bæði meiri reynslu og lengri sögu af því að vinna með innflytendum og mynda tengsl við þá aðila sem starfa í þeim málum. Undirbúningur ferðarinnar fólst í því að þátttakendur hittust og lögðu niður skipulag ferðarinnar og ræddu hvaða væntingar þeir hefðu til þess sem boðið væri upp á í ferðinni sjálfri. Ferðin sjálf tókst síðan afar vel og uppfyllti væntingar allra þátttakenda hvort sem um var að ræða stjórnendur, leikskólakennara eða verkefnastjóra. Ein af ástæðunum fyrir því var hversu vel skipulögð dagskráin var en til víðbótar við að heimsækja leikskóla og ræða við leikskólakennara og stjórnendur gafst tækifæri til að hitta fulltrúa yfirvalda og innflytjendur sjálfa. Þá tókst afar vel að kynna fyrir þátttakendum eðli og starfsemi fjölskyldumiðstöðva en slík starfsemi kemur einkar vel til móts við þarfir þeirra innflytjenda sem þurfa á auknum stuðningi samfélagsins að halda til að ná fótfestu í nýju landi. Þá má segja að ánægjuleg aukaafurð verkefnisins hafi falist í því að styrkja samstarf og um leið lærdómssamfélag leikskóla hér í borg sem glíma við þá áskorun að koma til móts við þarfir barna innflytjenda en í aðdraganda ferðarinnar og að henni lokinni átti hópurinn einkar gefandi og gagnlegar samræður um nýfengna reynslu og viðfangsefnin framundan. Á sama hátt var það mjög dýrmætt fyrir þátttakendur í ferðinni að lokakvöldið í Dortmund stóð samstarfsaðili okkar fyrir samkomu þar hópnum gafst tækifæri til að hitta þýska leikskólakennara sem áður hafa heimsótt leikskóla í Reykjavík og hluta af þeim aðilum sem við höfðum heimsótt í ferðinni. Þar gafst enn betra tækifæri til að deila hugmyndum og leiðum um fjölmenningarlegt leikskólastarf.
Up2Europe Ads

Coordinator

Details